West Side

Ritstjórn Fréttir

West Side er samstarfsverkefni Menntaskóla Borgarfjarðar, Fjölbrautaskóla Vesturlands og Fjölbrautaskóla Snæfellinga og hefur staðið um nokkurra ára skeið. Á West Side hittast nemendur skólanna, keppa í ýmsum greinum og dagskránni lýkur með balli.  West Side var að þessu sinni haldið í Ólafsvík þann 4. október síðastliðinn. Rúmlega 40 nemendur frá MB lögðu leið sína til Ólafsvíkur. Keppt var í blaki, fótbolta, handbolta og „dodgeball“ í íþróttahúsinu, pítsa snædd í grunnskólanum og loks haldin Gettu betur keppni sem lauk með sigri Fjölbrautaskóla Vesturlands. Nokkur bið var eftir að ballið hæfist og að sögn Lilju Hrannar Jakobsdóttur, formanns Nemendafélags MB, hefði mátt skipuleggja þann tíma betur. Hún sagði dansleikinn hins vegar hafa einkennst af mikilli stemmningu og góðum tónlistaratriðum. Ballinu lauk um eittleytið og nemendur MB komu loks heim í Borgarnes um þrjúleytið aðfaranótt föstudags. Þeir  stóðu sig vel í öllum keppnunum og voru skólanum til sóma.