Starfsbraut er ætluð nemendum sem hafa viðurkennd greiningargögn um fötlun skv. lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992. Námið er einstaklingsmiðað og sveigjanlegt. Nám á starfsbraut miðast við 4 ár og einingafjöldinn sem nemendur útskrifast með er einstaklingsbundinn, viðmiðið er 240 einingar. Nám og kennsla á starfsbraut eru skipulögð með tilliti til þess nemendahóps sem innritast á brautina á hverjum tíma. Áhersla er á að efla sjálfsmynd nemenda, auka félagsleg samskipti og undirbúa þá undir áframhaldandi nám við hæfi og/eða þátttöku á vinnumarkaði.
Kennsluhættir brautarinnar eru eftir hugmyndafræði leiðsagnarnáms þar sem áhersla er á færniþjálfun og að efla nemendur svo þeir verði færir um að taka ábyrgð á eigin námi. Lagt er upp með að nemendur nái færni í að staðsetja sig þar sem verkefni eru við hæfi, að þeir finni að kröfur eru ekki of miklar og ekki of litlar.
Lögð er áhersla á að skapa notalegt og afslappað andrúmsloft þar sem allir finna sig örugga og velkomna. Á brautinni stunda nemendur nám við hæfi og viðhalda þannig þeirri færni sem þeir hafa þegar náð auk þess að bæta við bæði færni og þekkingu, hvort sem horft er til frekara náms eða atvinnuþátttöku. Þeir fá tækifæri til og eru hvattir til að nýta styrkleika sína til að blómstra á áhugasviðum sínum og fá þannig hvata til að leggja sig fram og gera sitt besta.
Nám og kennsla eru skipulögð með tilliti til þess nemendahóps sem innritast á brautina á hverjum tíma. Áhersla er lögð á fjölbreytta kennsluhætti sem eru sniðnir að þörfum og getu nemenda. Þar sem námið er einstaklingsmiðað og tekur mið af hópnum hverju sinni geta áherslur og þátttaka í áföngum verið mismunandi.
Verklegt nám er hluti af námi á starfsbraut. Nemendur fá þjálfun í og eru hvattir til að nýta sér Kviku, skapandi rými. Gott samstarf er við Ölduna, vinnustað fólks með skerta starfsgetu þar sem fram fer hæfing og virkniþjálfun, og eins við Grunnskólann í Borgarnesi.
Að námi loknu eiga nemendur að hafa fengið almennan undirbúning fyrir lífið og í grunnþáttum menntunar. Námið er á fyrsta þrepi, þ.e. almenn og hagnýt þekking sem miðast við stöðu hvers og eins. Möguleiki er á að nemendur taki áfanga á öðrum námsþrepum og námsbrautum, uppfylli þeir skilyrði þar um. Dæmi eru um að skráðir nemendur á starfsbraut séu eingöngu í fögum utan brautar og sæki stuðning og utanumhald til starfsbrautar. Einnig að nemendur færi sig yfir í almennt nám að loknu námi á starfsbraut og taki staka áfanga.
Til að hámarka námsárangur nemenda skiptir miklu máli að þeir séu með eigin tölvu og hafi rafræn skilríki til að komast inn á námskerfi skólans.
Starfsbraut samkv. námskrá