Skólinn

Upphaf skólastarfs í Menntaskóla Borgarfjarðar

Menntaskóli Borgarfjarðar var formlega stofnaður 4. maí 2006 með staðfestingu menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sem um leið tók fyrstu skóflustunguna að skólabyggingunni. Þann 11. júlí 2006 samþykkti hluthafafundur formlega tilveru skólans og kosin var stjórn sem tók við af undirbúningsstjórn skólans. Þann fyrsta ágúst 2006 tók verkefnisstjóri til starfa við undirbúning skólastarfs og 1. febrúar 2007 tók skólameistari til starfa ásamt aðstoðarskólameistara. Kennarar voru síðan ráðnir til starfa frá 1. júní 2007 og skólinn settur við formlega athöfn í Skallagrímsgarði í Borgarnesi þann 22. ágúst 2007. Skólinn er einkahlutafélag og eru aðstandendur hans um 160 talsins. Stærstu hluthafarnir voru í upphafi Sparisjóður Mýrasýslu og Borgarbyggð. Frá upphafi undirbúnings Menntaskóla Borgarfjarðar var lögð á það áhersla að skólinn færi ótroðnar slóðir í starfsháttum og yrði í fremstu röð framhaldsskóla í uppeldi og kennslu. Stjórn skólans ákvað fljótlega að í boði yrði nám á fjórum námsbrautum til að byrja með þ.e. starfsbraut, almennri braut, félagsfræðabraut og náttúrufræðibraut. Tvær síðastnefndu brautirnar eru til stúdentsprófs. Meðal nýjunga í skólastarfinu má nefna að stúdentsprófi ljúka nemendur að jafnaði á þremur árum og áhersla er lögð á leiðsagnarmat  í stað hefðbundinna prófa. Formleg annarpróf eru  ekki haldin í desember og maí og kennslutími á önn er því fjórum til fimm vikum lengri en almennt gerist í framhaldsskólum.