Skólaþróun í MB

Bragi Þór Svavarsson Fréttir

Starfshópurinn í verkefninu Menntun fyrir störf framtíðar


Menntun fyrir störf framtíðar í Menntaskóla Borgarfjarðar

Menntaskóli Borgarfjarðar hefur löngum verið þekktur fyrir að vera sveigjanlegur og framsækinn skóli og gefur ekkert eftir í því markmiði sínu.

Í fyrra vor skipulagði skólinn ráðstefnu sem bar heitið “Menntun fyrir störf framtíðarinnar.” Ráðstefnan endurspeglaði á margan hátt það sem fullrúar atvinnulífs á Íslandi og OECD telja vera mikilvæga hæfni fyrir framtíðina og hvaða áherslur ættu að vera í menntun ungs fólks í dag. Núna á vormisseri fékk skólinn til liðs við sig hóp einstaklinga úr atvinnulífi og menntamálum sem fékk það verkefni að skoða hverskonar nám og kennsluaðferðir gætu undirbúið ungt fólk fyrir áskoranir dagsins í dag og til framtíðar. Verkefastjóri var Signý Óskarsdóttir.  Stóru málin í heiminum eins og fjórða iðnbyltingin, umhverfismálin og sjálfbærnimarkmið sameinuðuþjóðanna ásamt lýðfræðilegum áskorunum kalla á aukna nýsköpun á öllum sviðum mannlífs og samfélags. Stefnur íslenskra stjórnvalda í menntamálum og nýsköpun til ársins 2030 endurspegla mikilvægi þess að ungt fólk búi yfir hæfni og eiginleikum til að geta tekið þátt í að móta nýjar lausnir í góðri samvinnu við aðra og þvert á greinar til þess að mæta áskorunum dagsins í dag og framtíðar.

Mikil áhersla var lögð á samtal við  breiðan hóp fólks, rætt var við ungt fólk, bæði núverandi, tilvonandi og útskrifaða nemendur skólans sem töldu 111 ungmenni á aldrinum 14 – 23 ára.   Starfshópurinn ræddi við fulltrúa fjögurra háskóla með það að markmiði að gæta þess að tillögur hópsins stæðust þær kröfur sem háskólar gera til sinna nýnema. Starfsfólk MB hittist á vinnufundi í mars og ræddi hugmyndir sínar um námið, kennsluaðferðir, skipulag náms og náms- og kennsluumhverfi.

Tillögur um Menntun fyrir störf framtíðar

Starfshópur verkefnisins Menntunar fyrir störf framtíðar skilaði af sér tillögum til stjórnar skólans í lok apríl síðstliðnum. Tillögurnar endurspegla vel hugmyndir nemenda, starfsfólks skólans ásamt því að byggja á hugmyndum úr atvinnulífi og háskólasamfélaginu.

Menntaskóli Borgarfjarðar hefur haft þá ímynd að vera góður bóknámsskóli sem undirbýr nemendur vel fyrir áframhaldandi nám og það mun halda áfram að vera leiðarstef skólans. En mikilvægt er í þessu samhengi að tala líka um undirbúning fyrir lífið sjálft og þátttöku í atvinnulífi.

Framtíðarver

Starfshópurinn leggur til að MB byggi upp Framtíðarver innan skólans. Hugmyndin er að þar geti nemendur og starfsfólk nýtt sér aðgang að tækjum og hugbúnaði sem gagnast í verklegri kennslu í öllum greinum ásamt þjálfun í stafrænni hönnun og miðlun.

Stafræn hönnun og miðlun

Stafræn hönnun og miðlun nær til allrar rafrænnar miðlunar efnis. Miðlunin fer fram í gegnum ýmsar veitur eins og samfélagsmiðla, vefsíður, hlaðvörp og áfram má telja. Lagt er til að stafræn hönnun og miðlun verði kennd öllum nemendum, að þeir læri að búa til efni og miðla þekkingu sinni með faglegum og ábyrgum hætti. Nemendur öðlast þá leikni í að setja fram hugmyndir sínar myndrænt í gegnum stafrænar leiðir og miðla þeim þannig.

STEAM greinar

Lagt er til að allir nemendur skólans fái tækifæri til  að vinna í gegnum STEAM greinar sem kenndar eru í Framtíðarverinu. En STEAM greinar samanstanda af vísindum, tækni, verkfræði, skapandi vinnu og stærðfræði. Greinarnar eru kenndar þverfaglega og er eðli STEAM náms og kennslu að byggja á skapandi og gagnrýnni hugsun í gegnum verkefni sem eru þverfagleg og geta byggt á áhugasviði nemenda sjálfra. STEAM nám hvetur til nýsköpunar á öllum sviðum. Í ferlinu læra nemendur líka þá færni og hæfni sem atvinnulíf og háskólar hafa kallað eftir. Þegar rýnt er í kennslufræði og innihald STEAM kennslustunda þá má sjá að þær þjálfa nánast alla þá færni og hæfni sem kallað er eftir í síbreytilegu samfélagi og atvinnugreinum.

Lífsnám

Starfshópurinn taldi mikilvægt að nemendur MB taki þátt í lífsnámi eins og nemendur sjálfir kalla það og að lífsnámið sé tengt inn í lykilhæfni náms. Inntakið í lífsnáminu byggir á þáttum eins og fjármálalæsi, kynheilbrigði og kynfræðslu, sjálfbærni, námstækni, frumkvöðlafræði og áfram má telja.

Tungumál

Lagt er til að nemendur fái meira val um þriðja tungumál.

Skóli um allan heim

Lagt er til að MB verði skólinn sem opnar dyr út í heim fyrir sína nemendur. Að hægt verði að taka áfanga frá skólum erlendis og þeir metnir inn í námsferil nemenda. Með þessu móti er hægt að segja að MB sé með ótakmarkað val fyrir þær einingar sem flokkast sem valeiningar.

Í þessu samhengi er mikilvægt að skólinn tengist vinaskólum erlendis og finni jafnvel nýja skóla og menntastofnanir til að vinna með utan Íslands.

Sterkt samstarf innanlands

Lagt er til að skólinn efli tengsl sín og hafi frumkvæði að samstarfi milli framhaldsskóla á Vesturlandi og víðar á landinu.

Lotukennsla

Lagt er til að öll kennsla skólans fari fram í lotum og lögð verði áhersla á að tengja lífsnámið inn í áhersluvikur sem settar eru upp á milli lota á hverri önn.

Stúdentsbrautir

  • Í MB er ein stúdentsbraut sem kvíslast í sérhæfingar á fræðasviðum.

 

Á stjórnarfundi MB 23ja ágúst samþykkti stjórn MB að fela stjórnendum og starfsfólki skólans að vinna áfram þessar tillögur og innleiða í skrefum í skólastarfið. Sú vinna verður í höndum alls starfsfólks og það er mikil spenna í MB fyrir komandi tímum og auknu vægi þeirra áherslna sem að koma fram í þessum tillögum.

Hér má nálgast tillögur hópsins í heild sinni.