Innritun á haustönn 2019

Innritun eldri nemenda (fæddir 2002 eða fyrr) sem eru ekki í framhaldsskóla sem stendur eða ætla að skipta um skóla hófst föstudaginn 7. apríl og lýkur fimmtudaginn 31. maí.  Innritað er á www.menntagatt.is

Lokainnritun nemenda í 10. bekk verður 6. maí til 7. júní. Nemendur í 10. bekk hafa frest til að sækja um nám í framhaldsskóla eða breyta umsóknum úr forinnritun til miðnættis föstudaginn 7. júní. Einkunnir þeirra verða sendar rafrænt frá grunnskólum til framhaldsskóla eftir skólaslit.

Aðalfundur MB 17. maí 2019

Aðalfundur Menntaskóla Borgarfjarðar verður haldinn í Hjálmakletti föstudaginn 17. maí klukkan 12:00.

Venjuleg aðalfundarstörf.

Dagskrá samkvæmt grein 3.2 í samþykktum félagsins

1. Skýrsla stjórnar
2. Ársreikningur lagður fram til samþykktar
3. Kosning stjórnar
4. Kosning endurskoðunarfélags til eins árs
5. Ákvörðun um hvernig skuli fara með hagnað eða tap félagsins og framlög í varasjóð
6. Ákvörðun um greiðslur til stjórnarmanna fyrir störf þeirra á starfsárinu
7. Önnur mál löglega borin upp

Leikhópur MB á uppskeruhátíð á Hólmavík

Menntaskóli Borgarfjarðar tekur þátt í verkefninu Þjóðleikur í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Þetta er verkefni sem hefur verið í gangi í tíu ár með það að markmiði að tengja þjóðleikhúsið á lifandi hátt við ungt fólk á landsbyggðinni og að efla þannig bæði áhuga þess og þekkingu á listforminu. Annað hvert ár eru þrjú til fjögur þekkt íslensk leikskáld fengin til að skrifa krefjandi og spennandi leikrit fyrir ungt fólk. Geir Konráð Theodórsson tók að sér að vera leiðbeinandi leikhópsins Sv1 við MB en leikhópurinn tók sér verkið „Eftir lífið“ fyrir hendur, eftir Sigtrygg Magnason. Uppskeruhátíð var haldin á Hólmavík dagana 30. apríl og 1. maí síðastliðinn, fyrir vestfirði og vesturland. Þangað mættu þeir Geir Konráð og Guðmundur Friðrik sem fulltrúar Menntaskóla Borgarfjarðar. Geir og Guðmundur fluttu brot úr sýningu MB á uppskeruhátíðinni og fengu að sjá aðra leikhópa sýna sín verk. Fjölbrautarskóli Snæfellinga var til dæmis með sama verk og MB en uppsetningin var mjög ólík. Ari Matthíasson leikhússtjóri Þjóðleikhússins og Björn Ingi Hilmarsson verkefnastjóri Þjóðleiks ásamt fleiri gestum frá Þjóðleikhúsinu komu á hátíðina til að sjá verkin. Allt gekk vel og mikil gleði einkenndi hópinn sem fór í skrúðgöngu í tilefni 1. maí þar sem yfirskriftin var „Lífið er leikhús“. Við óskum Þjóðleik og leikhópi MB innilega til hamingju með þetta góða samstarf.