Snæþór Bjarki er nemandi í MB

Í Menntaskóla Borgarfjarðar er iðkað öflugt menntaskólastarf þar sem nemendur sýna mikinn metnað og elju í námi. Snæþór Bjarki Jónsson er einn af þeim nemendum MB sem sýnir mikinn metnað í námi sem og félagsstörfum innan skólans en hann er formaður Nemendafélags Menntaskóla Borgarfjarðar, NMB. Snæþór er fyrirmyndarnemandi sem eðli málsins samkvæmt sinnir námi sinni af kostgæfni en að sama skapi hefur hann tíma til að veita félagslífi MB forystu og ekki nóg með það þá situr hann einnig í stjórn SÍF (Samband Íslenskra Framhaldsskólanema).

Við í MB erum stolt af okkar manni og hans framlags til framhaldsskólanema á Íslandi sem stjórnarmaður í SÍF. Verkefni SÍF hafa verið fjölbreytt í vetur en haldnir hafa verið hinir ýmsu viðburðir og í því samhengi má nefna einn þann stærsta sem er „Menningarþræðir“ (e. Culture Threads) sem fór fram á Hvammstanga í október. Þar hittist hópur fólks með fjölbreyttan bakgrunn víðs vegar af landinu og fræddist og ræddi um málefni innflytjenda og flóttamanna. Í kjölfarið á fundinum var haldinn opinn fundur til að kynna helstu niðurstöður. Menntamálaráðherra, þingmenn, fulltrúar Rauða krossins, skólameistarar, starfsmenn Reykjavíkurborgar og fleiri sóttu fundinn. Menntamálaráðherra ávarpaði fundinn og kynnti áætlanir ríkisstjórnarinnar í málefnum erlendra nemenda. Nú á nýju ári bíða SÍF spennandi verkefni á borð við Söngkeppnina o.fl.

Snæþór ásamt fleirum útskrifðust frá leiðtogaskóla LUF 2018 en það er Landssamband ungmennafélaga sem rekur Leiðtogaskóla Íslands (LSÍ). Markmiðið er að þjálfa persónulega hæfni, efla tengslanet, deila reynslu, auka getu og valdefla ungt fólk á Íslandi. Grunnþættir fræðslunnar á vegum LSÍ er lýðræði og mannréttindi í verki.

Sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum er málefni sem hefur verið ofarlega á baugi hjá SÍF og er stjórnin bjartsýn á framhaldið. SÍF stefnir að því að leggja fyrir könnun meðal nemenda til að kortleggja þörfina á sálfræðiþjónustinni. Þess má geta að í MB er öllum nemendum skólans boðið uppá allt að fjóra sálfræðitíma sér að kostnaðarlausu í samstarfi við Sjúkrasjóð Stéttarfélags Vesturlands. Þar að auki er starfandi námsráðgjafi í 40% stöðu sem sinnir nemendum bæði hvað varðar nám og persónulega þætti.

Heimild og myndir: Nýársfréttabréf SÍF

Skólaupphaf vorönn 2019

Skólastarf á vorönn hefst mánudaginn 7. janúar næstkomandi. Nýnemar fá stundaskrár sínar sendar í tölvupósti 4. janúar en kennsla hefst samkvæmt stundaskrá klukkan 8:20 þann 7. janúar. Stundaskrár eldri nemenda eru þegar aðgengilegar á Innu en þó með fyrirvara um lítilsháttar breytingar.

Skólagjöld fyrir vorönn eru 12.000 krónur og samanstanda af 7.000 króna innritunargjaldi og 5.000 króna þjónustugjaldi. Eindagi þessara gjalda er 4. janúar.

Bókalista og allar nánari upplýsingar um skólastarfið er að finna á heimasíðu skólans.

Jólaleyfi – Lokun skrifstofu

Starfsfólk Menntaskóla Borgarfjarðar óskar nemendum, foreldrum og öllum velunnurum skólans gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Skrifstofa skólans verður lokuð frá 21. desember til  3. janúar. Hafa má samband við skólameistara  á netfangið gudrunbjorg@menntaborg.is ef um brýnt erindi er að ræða. Kennsla hefst að loknu jólaleyfi þann 7. janúar kl. 8.20 samkvæmt stundaskrá.