Áfallaáætlun

Í áfallaráði eru:

Skólameistari, náms- og starfsráðgjafi, hjúkrunarfræðingur HVE, aðstoðarskólameistari og skólafulltrúi.

Áfallaráð

Hlutverk áfallaráðs er gerð vinnuáætlunar um hvernig skuli bregðast við þegar áföll hafa orðið svo sem dauðsföll, slys, eða aðrir atburðir sem líklegir eru til að kalla fram áfallastreitu og/eða sorgarviðbrögð. Áætlunin felur í sér hvað skuli gera, í hvaða röð og hver sinni hvaða hlutverki.

Dæmi um áföll sem kalla á slíka vinnuáætlun eru:

  • Slys/alvarleg veikindi nemanda/starfsmanns í skóla/utan skóla.
  • Andlát starfsmanns/nemanda.
  • Aðrir ógnvekjandi atburðir sem snerta hóp starfsmanna eða nemenda s.s. ef eldur kemur upp í húsnæði skólans, náttúruhamfarir eða stórslys.

Skólameistari fer með stjórn ráðsins og kallar það saman þegar þörf krefur. Áfallaráð fer með verkstjórn þegar válegir atburðir gerast, kynnir sér skyndihjálp og sálræna skyndihjálp og miðlar þeirri þekkingu til annarra starfsmanna skólans.

Upplýsingar

  • Sá sem fyrstur fær upplýsingar um dauðsfall eða slys, kemur boðum til skólameistara/aðstoðarskólameistara sem strax grípur til viðeigandi ráðstafana. Skrifstofa skólans er gjarnan milliliður sem fyrst fær tilkynningu um atburðinn.
  • Skólameistari, aðstoðarskólameistari eða hjúkrunarfræðingur hafa samband við nánustu aðstandendur hins látna/slasaða.
  • Ef atburður er tilkynntur til allra starfsmanna sameiginlega þarf að kanna, ef kostur er, hvort einhverjir í hópnum eru nánir viðkomandi. Ef svo vill til þurfa þeir að fá fregnina einslega.

Viðbrögð við mismunandi áföllum

A. Slys/alvarleg veikindi

  • Kennurum og nemendum skal greint frá því ef einhver úr þeirra hópi hefur lent í alvarlegu slysi/veikindum og þarf að vera lengi fjarverandi af þeim sökum.
  • Kennurum og samnemendum skal greint frá alvarlegu slysi/veikindum í fjölskyldu nemanda. Skal það gert í samráði við nemandann og fjölskyldu hans.
  • Verði nemandi fyrir slysi í skólanum eða í ferð á vegum skólans, skal haft samband við lögreglu og láta skólameistara vita. Skólameistari lætur aðstandendur vita svo fljótt sem auðið er.
  • Verði starfsmaður fyrir slysi á skólatíma hefur skólameistari samband við aðstandendur.
  • Skólastjórnendur skulu gæta þess eins og mögulegt er, að enginn fari heim með rangar upplýsingar ef slys hefur orðið í skólanum/í skólaferð.
  • Skólameistari er eini tengiliður skólans við fjölmiðla um atburði sem áfallaráð fjallar um.

B. Andlát nemanda utan skólans.

  • Fengin er staðfesting á andláti og leitað réttra upplýsinga um aðdraganda þess.
  • Tala skal við skyldmenni og vini hins látna innan skólans áður en öðrum er tilkynnt um andlátið.
  • Kennurum skal tilkynnt um andlátið eins fljótt og kostur er og einnig um aðdraganda þess.
  • Flaggað skal í hálfa stöng þann dag sem andlátsfregn berst og einnig þann dag sem jarðað er, en reynt að halda uppi eins eðlilegu skólastarfi og unnt er.
  • Skólameistari/kennari/aðrir fari heim til nemanda ef kostur er.
  • Skólastjórnendur sendi samúðarkveðjur til fjölskyldu hins látna.

C. Andlát starfsmanns utan skólans

  • Fengin er staðfesting á andláti og leitað réttra upplýsinga um aðdraganda þess.
  • Tala skal við skyldmenni og vini hins látna innan skólans áður en öðrum er tilkynnt um andlátið.
  • Starfsfólki skólans skal tilkynnt um andlátið eins fljótt og kostur er og einnig um tildrög þess.
  • Flaggað skal í hálfa stöng þann dag sem andlátsfregn berst og einnig þann dag sem jarðað er, en reynt að halda uppi eins eðlilegu skólastarfi og unnt er.
  • Skólameistari/kennari/aðrir fari heim til fjölskyldu starfsmanns.
  • Skólastjórnendur sendi samúðarkveðjur til fjölskyldu hins látna.

D. Andlát í skólanum

  • Eigi andlát sér stað í skólanum þarf að kalla til lögreglu og prest sem sjá um að aðstandendur fái réttar upplýsingar.
  • Sýni fjölmiðlar áhuga er skólameistari eini tengiliður skólans við þá. Allir aðrir skulu vísa á hann varðandi upplýsingar.
  • Að öðru leyti skal fylgja leiðbeiningum í B- og C lið.

E. Andlát aðstandanda nemanda

  • Látist foreldri eða annar náinn aðstandandi nemanda skal kennurum greint frá því og viðkomandi „bekkjarfélögum“ tilkynnt það sérstaklega. Þetta fer þó eftir því hversu vel hópurinn hefur tengst og skal gert í samráði við nemandann.
  • Nemanda skal tryggð aðstoð innan skólans eftir því sem þörf krefur og stuðningur varðandi endurkomu í skólann.

Áframhaldandi stuðningur eftir áfallið

  • Venjubundið skólastarf sefar óttann og kvíðann sem fylgir áföllum. Mikilvægt er að starfsmenn skólans séu eins eðlilegir og hlýlegir og þeim er unnt. Tillitssemi og virðing felst m.a. í því að staldra ekki of lengi við áföllin heldur halda áfram lífsgöngunni þó sorgin sé til staðar.
  • Þeir einstaklingar og hópar sem áfallið hefur mest áhrif á þurfa að eiga aðgang að stuðningsaðilum innan skólans sem vinna með þeim úr áfallinu. Mikilvægt er að kennarar gefi nemendum kost á að ræða atburðinn ef þeir kjósa það, en jafnframt að bjóða upp á einstaklingsviðtöl, t.d. hjá námsráðgjafa.
  • Starfsmenn áfallaráðs hlúi að nemendum og starfsfólki eins og kostur er.

Viðbrögð við bráðatilvikum í skólanum

  • Kennari/starfsmaður:

– Sinnir þeim veika.

– Sendir eftir aðstoð á skrifstofu* Ekki hringja sjálfur. Mikilvægt er að hafa stjórnina á vettvangi.

– Gætir þess að enginn yfirgefi vettvang í uppnámi.

* Á skrifstofu er tekið við stjórninni í þessari röð: Skólameistari, aðstoðarskólameistari, námsráðgjafi, hjúkrunarfræðingur.