Forvarnastefna

Forvarnir eru hluti af daglegu starfi skólans í kennslu og félagslífi, og fela í sér fræðslu og ýmis úrræði fyrir starfsfólk og nemendur skólans. Markmið forvarna er að stuðla að betri líðan og ástundun nemenda, ýta undir jákvæða lífssýn, efla ábyrgð nemenda á heilbrigðum lífshættum, félagsþroska og virðingu í samskiptum í skólasamfélaginu, ásamt því að vinna gagngert gegn hverskyns áhættuhegðun. Forvarnir vinnast í samráði við skólasamfélagið innan MB, foreldra og forráðamenn nemenda, sveitafélagið og sérfræðistofnanir líkt og Embætti Landlæknis.

Forvarnarfulltrúi

Forvarnarfulltrúi skólans er Lilja Hrönn Jakobsdóttir, netfang er liljajakobs@menntaborg.is

Við MB starfar forvarnarfulltrúi sem annast skipulag forvarnarstarfs innan skólans í samráði við aðra starfsmenn og situr í forvarnarhóp sveitafélagsins fyrir hönd skólans við stefnumótun forvarna í Borgarbyggð. Fulltrúinn er boðberi forvarna innan skólans og skal sækja fræðslu um heilsueflingu og forvarnir. Forvarnarfulltrúi vinnur með nemendafélagi skólans og tryggi að gildi og stefnur skólans séu í hávegum höfð við skipulag félagslífs.  Unnið skal í samræmi við efni og áherslur Embætti Landlæknis, m.a. sem þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli, Lögreglunni á Vesturlandi og Forvarnarhópi Borgarbyggðar, með samnýtingu fræðsluerinda, efnisvali og eflingu fræðslu fyrir foreldra og forráðamenn.

Nemendur og forvarnir

Greiða skal veg nemenda að þjónustu skólahjúkrunarfræðings, náms- og starfsráðgjafa og sálfræðiaðstoð eftir bestu getu. Áhersla sé lögð á að upplýsingar um hvert nemendur geti leitað séu auðfundnar, að nemendur viti af þeim bjargráðum sem standa þeim til boða og að velferð þeirra skipti máli.  Nemendur í sérstakri hættu skuli fá sérstaka leiðsögn varðandi vímuefnavarnir innan skólans eða þeim sé vísað áfram til annarra fagaðila eftir þörfum. Nemendafélag og önnur félög skólans skulu standa fyrir fjölbreyttu félagslífi sem stuðlar að heilbrigðu skólasamfélagi og félagsþroska, þar sem áhersla er á vímuefnalausa skemmtun á forsendum sem flestra nemenda. Skólinn skal styðja við félagslíf og tómstundaiðju nemenda eftir fremsta megni.

Skólinn og forvarnir

MB skal halda úti áföngum sem hafa forvarnargildi og geta stuðlað að aukinni velferð ungmenna, líkt og lífsnámsáfangar, kynjafræði, íþrótta- og næringarfræði o.fl.  Reglur skólans um vímuefni á skólatíma og á skólaviðburðum eru skýrar (sjá grein 4 í skólareglum), og skal framfylgja þeim í einu og öllu, sem og jafnréttis- og eineltisáætlunum skólans. Áætlanir og stefnur skólans skulu vera sýnilegar á heimasíðu, og allir nýir nemendur skólans skulu fá kynningu á reglum skólans. Skólinn skal vanda alla miðlun forvarnarefnis, og tryggja áherslu á jákvæða þætti og heilbrigði. Starfsfólk skólans skal hljóta fræðslu um helstu einkenni sem nemendur í vanda bera oft með sér svo það sé í stakk búið að fylgja því eftir ef grunur vaknar um áhættuhegðun, með velferð nemandans að leiðarljósi.

Hlutverk foreldra og forráðamanna

Foreldrar og forráðamenn eru ein mikilvægasta fyrirmyndin í lífi ungmenna, afgerandi afstaða gegn notkun tóbaks, áfengis og annarra vímuefna heima fyrir getur dregið verulega úr áhættuhegðun ungmenna. Skýr mörk, opið samtal og eftirlit reynast foreldrum og forráðamönnum oft best í forvörnum. Forvarnastarf skilar aðeins árangri með góðu samstarfi heimila og skóla.

Þátttaka í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli

Menntaskóli Borgarfjarðar er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli sem byggir á þeirri „stefnu að nálgast heilsueflingu og forvarnir út frá víðtæku og jákvæðu sjónarhorni með það að markmiði að stuðla að vellíðan og auknum árangri allra í skólasamfélaginu, nemenda og starfsfólks. Nálgunin veitir aukin tækifæri til að efla tengslin við nærsamfélagið og auka þannig stuðning og tækifæri nemenda og starfsfólks til að tileinka sér jákvæðan og heilbrigðan lífstíl“. 

Helstu áherslur í verkefninu eru hreyfing, næring, geðrækt, tóbak, rafrettur, áfengi og vímuefni, jafnrétti og kynheilbrigði og að lokum öryggi. 

Forvarnafulltrúi er tengiliður skólans við verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér.