Lífsnámið í Menntaskóla Borgarfjarðar samanstendur af fimm nýjum áföngum sem falla undir það sem nemendur kalla Lífsnám eða að læra á það sem skiptir máli í lífinu; kynlíf, geðheilbrigði, fjármál, umhverfismál, jafnrétti og mannréttindi.
Námið var skipulagt í samvinnu við nemendur og allir nemendur skólans taka þátt í Lífsnámsáfanga á sama tíma. Nemendur vinna saman á milli árganga eina viku á önn og á þeim tíma dettur hefðbundin stundatafla úr gildi og aðrir áfangar eru ekki kenndir.
Í Lífsnámsvikum fá nemendur tækifæri til að vinna með sérfræðingum á hverju sviði og takast á við krefjandi verkefni sem tengjast efnistökum hvers áfanga. Kennarar vinna í teymum og leiðbeina nemendum í gegnum þverfagleg verkefni sem tengjast innihaldi hvers áfanga.