Raddir nemenda

Raddir nemenda

Mikil áhersla var lögð á samtal við ungt fólk, bæði núverandi, tilvonandi og útskrifaða nemendur skólans sem töldu 111 ungmenni á aldrinum 14 – 23 ára.

Það er ánægjulegt að segja frá því að nemendur MB eru upp til hópa ánægðir með skólann sinn en lögðu líka til góðar hugmyndir um skólaþróun.

Unga fólkið lagði mikla áherslu á það sem þau kalla sjálf lífsnám; fjármálalæsi, réttindi og skyldur á vinnumarkaði, hvernig á að taka stórar ákvarðanir í lífinu, stunda geðrækt og sjálfsumönnun í víðum skilningi. Mjög aukna fræðslu um kynlíf og kynvitund, jafnrétti í nútímanum og sjálfbærni.

Unga fólkið kallaði eftir nemendamiðuðu námi og að lögð verði meiri áhersla á þeirra áhugasvið og umræður. Þau vilja einblína meira á nútímann, það sem er að gerast í dag. Námið þarf að hafa notagildi og tæknina þarf að nýta vel í námi og kennslu og auka aðgengi að rafrænu námsefni. Þau kölluðu eftir meiri áherslu á heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna.

Það var áberandi að unga fólkið vildi öðlast meiri stafræna færni og hafa aðstöðu til þess að vinna stafrænt efni og gera tilraunir. Unga fólkið hafði sterka skoðun á tungumálanámi og vilja meira frelsi til að velja sér þau tungumál sem þau læra. Listir og hönnun fékk líka gott vægi ásamt því að efla verklega kennslu í öllum greinum með raunverulegum verkefnum og tilraunum.

Unga fólkið vill að námsumhverfi þeirra sé fjölbreytilegt, að hægt sé að velja vinnuaðstöðu út frá því hvaða verkefni er verið að vinna hverju sinni. Umhverfið á að vera tæknivætt, nútímalegt og hlýlegt með mismunandi húsgögnum, litum og blómum.  Þau leggja til að efla samstarf milli framhaldsskóla í tengslum við nám og félagslíf ásamt því að stofna til samstarfs við skóla erlendis.