Lífsnám

Lífsnám

Nemendur kalla eftir því sem við köllum núna Lífsnám. Inntakið í Lífsnáminu byggir á þáttum eins og fjármálalæsi, kynheilbrigði og kynfræðslu, sjálfbærni, jafnrétti og  andlegu og líkamlegu heilbrigði og áfram má telja.  Um er að ræða fimm lífsnámsáfanga og munu allir nemendur skólans taka þátt í áföngunum á sama tíma. Hér er því um að ræða kennslu sem fer þvert á árganga og lögð verður áhersla á að vinna nemenda byggist á þverfaglegum verkefnum.

Vinnuhópur innan skólans hefur þróað fyrsta áfangann fyrir lífsnámið ásamt rýnihóp nemenda sem kemur með tillögur varðandi innihald og skipulag.

Fyrsti áfangi lífsnámsins verður kenndur á vorönn 2022. Þá verður heil vika helguð umfjöllun um kynlíf, kynhneigðir og kynheilbrigði með áherslu á mikilvægi gagnkvæmrar virðingar í samskiptum fólks.  Jafnframt verður fjallað um kynferðislegt, andlegt og fjárhagslegt ofbeldi. Áhersla verður lögð á að efla sjálfsvirðingu nemenda og mikilvægi ábyrgrar ákvarðanatöku.  Skipulag vikunnar og innihald áfangans sem ber heitið Alls-kyns var unnið í samstarfi við nemendur.

Nemendur fá tækifæri til að vinna með sérfræðingum á þessu sviði auk þess sem kennarar MB búa til samþætt verkefni sem nemendur vinna með alla lífsnámsvikuna og kynna afrakstur sinn á föstudegi.

Aðrir áfangar í lífsnáminu verða kenndir í framhaldi einn á hverri önn og þar má finna áherslur eins og geðheilgbrigði og heilsusamlegt líferni, sjálfbærni, allt um fjármál og mannréttindi, lýðræði og jafnrétti.