STEAM greinar

Allir nemendur skólans fái tækifæri til  að vinna í gegnum STEAM greinar. En STEAM greinar samanstanda af vísindum, tækni, verkfræði, skapandi vinnu og stærðfræði. Greinarnar eru kenndar þverfaglega og er eðli STEAM náms og kennslu að byggja á skapandi og gagnrýnni hugsun í gegnum verkefni sem eru þverfagleg og geta byggt á áhugasviði nemenda sjálfra. STEAM nám hvetur til nýsköpunar á öllum sviðum. Í ferlinu læra nemendur líka þá færni og hæfni sem atvinnulíf og háskólar hafa kallað eftir. Þegar rýnt er í kennslufræði og innihald STEAM kennslustunda þá má sjá að þær þjálfa nánast alla þá færni og hæfni sem kallað er eftir í síbreytilegu samfélagi og atvinnugreinum ásamt grunnþáttum náms og lykilhæfni samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla.

Settur hefur verið saman rýnihópur með fulltrúum háskólanna vegna þróunar STEAM áfanga fyrir MB.

Það er mikil ánægja að fá tækifæri til að vinna með háskólunum og um leið víkka sjóndeildarhringinn og fá sérfræðiþekkingu inn í þróun áfangalýsinga fyrir þrjá STEAM áfanga.

Hér er um einstaka tilraun að ræða sem enginn framhaldsskóli, að því við vitum, hefur framkvæmt áður.
Við höfum skrifað grunn að áfangalýsingunum og gerum ráð fyrir þverfaglegri kennslu vísinda, tækni, verkfræði, listsköpunar/hönnunar og hagnýtrar stærðfræði. Við erum líka að skoða aðbúnað, náms- og kennsluumhverfi með tilliti til þessarar nýju áherslu í námi skólans. Framtíðarver skólans mun styðja við nám og kennslu í STEAM.

Fyrsti STEAM áfanginn verður kenndur 1. árs nemum á vorönn 2023.