STEAM áfangar

Allir nemendur skólans taka þrjá STEAM áfanga. En STEAM stendur fyrir vísindi, tækni, verkfræði, listsköpun og stærðfræði. Greinarnar eru samþættar og er eðli STEAM náms og kennslu að byggja á skapandi og gagnrýnni hugsun í gegnum verkefni sem eru þverfagleg og geta byggt á áhugasviði nemenda sjálfra.

STEAM nám hvetur til nýsköpunar á öllum sviðum. Í ferlinu læra nemendur líka þá færni og hæfni sem atvinnulíf og háskólar hafa kallað eftir. Þegar rýnt er í kennslufræði og innihald STEAM kennslustunda þá má sjá að þær þjálfa nánast alla þá færni og hæfni sem kallað er eftir í síbreytilegu samfélagi og atvinnugreinum ásamt grunnþáttum náms og lykilhæfni samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla.

STEAM áfangarnir í MB voru þróaðir í samvinnu við rýnihóp sem í sátu fulltrúar háskólanna ásamt starfsfólki skólans. Námsefni er einnig þróað í samvinnu við háskólana, starfsfólk MB og aðra sem búa yfir sérþekkingu á greinunum.

MB er eini framhaldsskólinn á Íslandi sem hefur STEAM áfanga í kjarna á stúdentsbrautum og ástæðan fyrir því er sú að með því að kenna STEAM teljum við að nemendur sem útskrifast með stúdentspróf úr MB verði betur í stakk búnir til að takast á við áframhaldandi nám eða vinnu að lokinni útskrift.