Í skólaþróun MB var og er mikil áhersla lögð á raddir nemenda. Talað var við núverandi, tilvonandi og útskrifaða nemendur skólans.
Það er ánægjulegt að segja frá því að nemendur MB eru upp til hópa ánægðir með skólann sinn en lögðu líka til góðar hugmyndir um skólaþróun.
Hugmyndir unga fólksins eru nýttar inn í skólaþróunina og leitað er til nemenda varðandi þátttöku í þróun náms og skipulagi sem og þróun námsumhverfis.
Það endurspeglast meðal annars í Lífsnáminu sem samanstendur af fimm nýjum áföngum sem falla undir það sem nemendur telja að skipti máli læra sem undirbúning fyrir lífið.
Unga fólkið kallaði eftir nemendamiðuðu námi og að lögð verði meiri áhersla á þeirra áhugasvið og umræður. Þau vilja einblína meira á nútímann, það sem er að gerast í dag. Námið þarf að hafa notagildi og tæknina þarf að nýta vel í námi og kennslu og auka aðgengi að rafrænu námsefni.
Það var áberandi að unga fólkið vildi öðlast meiri stafræna færni og hafa aðstöðu til þess að vinna stafrænt efni og gera tilraunir. Listir og hönnun fékk líka gott vægi ásamt því að efla verklega kennslu í öllum greinum með raunverulegum verkefnum og tilraunum.
Innleiðing stafrænnar hönnunar og miðlunar í alla áfanga, þróun STEAM áfanga ásamt Kvikunni í MB endurspeglar þessar óskir nemenda. En þessar áherslur var einnig að finna hjá fulltrúum úr atvinnulífi og menntamálum.
Lagt er upp með að þær breytingar sem fylgja skólaþróun í MB ýti undir fjölbreytt og líflegt námsumhverfi. Nemendur vilja að námsumhverfi þeirra sé fjölbreytilegt, að hægt sé að velja vinnuaðstöðu út frá því hvaða verkefni er verið að vinna hverju sinni. Umhverfið á að vera tæknivætt, nútímalegt og hlýlegt með mismunandi húsgögnum, litum og blómum.