Viðbragðsáætlun Menntaskóla Borgarfjarðar við tóbaksnotkun er byggð á tillögum frá Lýðheilsustöð og leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO).
Verði nemandi uppvís að því að nota tóbak, nikótínpúða eða rafrettur á skólasvæðinu skal viðkomandi starfsmaður/kennari fara yfir tóbaksvarnastefnu skólans með nemanda en samkvæmt henni eru reykingar og önnur tóbaksnotkun óheimil í húsnæði og á lóð skólans. Verði nemandi uppvís að því að nota munntóbak og eða nikótínpúða skal starfsmaður eftir að hafa farið yfir tóbaksvarnastefnu skólans með honum, biðja nemanda um að losa munntóbak/nikótínpúða í ruslafötu út á gangi. Tilkynna skal forvarnafulltrúa um atvikið með tölvupósti. Nemandi er upplýstur um tölvupóstinn og að ef atvikið endurtaki sig þá muni forvarnarfulltrúi boða nemanda í viðtal.
Ef atvikið endurtekur sig þá boðar forvarnafulltrúi nemandann til sín í viðtal og afhendir nemanda upplýsingar um hvernig ráðlagt sé að hætta tóbaksnotkun. Ef nemandi er undir 18 ára aldri er hann látinn vita af því að haft verði samband við foreldra/forráðamenn hans varðandi atvikið. Forvarnarfulltrúi boðar foreldrana á fund með nemandanum og afhendir þeim upplýsingar um hvernig ráðlagt sé að hætta tóbaksnotkun og til hverra sé hægt að leita eftir faglegri aðstoð. Ef atvikið endurtekur sig í þriðja sinn þá boðar forvarnarfulltrúi skólans nemanda á fund skólameistara sem tekur ákvörðun um framhaldið.