5. 3 Inntökuskilyrði

Um innritun í Menntaskóla Borgarfjarðar fer samkvæmt 32. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla og reglugerð nr. 1150/2008. Þeir sem hafa lokið grunnskólanámi, hafa hlotið jafngilda undirstöðumenntun eða hafa náð 16 ára aldri, eiga rétt á að hefja nám við Menntaskóla Borgarfjarðar. Þeir sem eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla samkvæmt framangreindu eiga jafnframt rétt á því að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs. Nemendur með lögheimili í Borgarbyggð hafa að öðru jöfnu forgang um skólavist.  

Stúdentsbrautir 

Til þess að tryggja sér rétt til náms á stúdentsbrautum þarf nemandi að ná lágmarkseinkunninni B í íslensku, ensku og stærðfræði við lok grunnskóla. 

Þeir nemendur sem hafa náð 18 ára aldri geta þó hafið nám á stúdentsbrautum þrátt fyrir að uppfylla ekki þessi inntökuskilyrði. 

Skólameistari getur heimilað nemendum sem ekki uppfylla skilyrði til innritunar að fullu að hefja nám á viðkomandi námsbraut ef telja má líklegt að þeir standist þær kröfur sem gerðar eru um námsárangur sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1150/2008 um innritun nemenda í framhaldsskóla. Ekki eru gerðar sérstakar kröfur um skólaeinkunnir inn á framhaldsskólabraut og starfsbraut. 

Nemendur sem ekki uppfylla kröfur um námsárangur úr grunnskóla í einstökum námsgreinum gefst kostur á að taka áfanga í viðkomandi grein á fyrsta hæfni þrepi sem undirbúning fyrir nám í viðkomandi grein á stúdentsprófsbraut. 

Röðun í áfanga 

Kröfur um undirbúning fyrir innritun miðast við skólaeinkunnir við lok grunnskóla. Til að hefja nám á öðru hæfniþrepi í dönsku, ensku, íslensku og stærðfræði þarf nemandi að hafa náð hæfnieinkunn B við lok grunnskóla. Að öðrum kosti hefur nemandi nám sitt í þessum greinum á fyrsta hæfniþrepi. 

Menntaskóli Borgarfjarðar (skólaráð) getur vikið frá þessum einkunnareglum ef ástæða þykir til og óskað eftir viðbótargögnum frá grunnskóla. Skólinn getur látið reglur um hæfniþrep gilda um nemendur 18 ára og eldri eftir atvikum. 

Inntaka nemenda sem ekki hafa lokið grunnskóla 

Skilyrði fyrir inntöku eru: 

  1. Að nemandi uppfylli þær kröfur um lágmarkseinkunnir sem getur um hér að ofan. 
  2. Umsögn frá grunnskóla um námslega stöðu nemandans og mat skólans, ásamt mati MB á því hvort þetta val sé raunhæfur kostur. 
  3. Viðtal við nemanda og foreldra.