8 – Skólabragur

Skólastarf Menntaskóla Borgarfjarðar hefur yfirskriftina: Sjálfstæði – Færni – Framfarir og kristallast viðhorf vinnunnar í skólanum í þessum markorðum.  Öll vinna í skólanum, nemenda og starfsfólks, skal unnin með fullri virðingu fyrir manneskjunni og umhverfinu.  Skólinn er vinnustaður allra sem þar stunda nám og sækja vinnu.  Gagnkvæm virðing er ein af meginstoðum góðs þroska og manndóms og forsenda þess að vinnufriður sé til staðar.  Nemendum skal sýnt traust og þeim fengin ábyrgð á sínu námi og vinnustað.  Samskipti skulu vera á jafnréttisgrunni þar sem hlustað er á sjónarmið allra. Í skólanum er reynt að skapa heimilislegt og afslappað vinnuumhverfi en það er forsenda fyrir góðum árangri að starfsfólki og nemendum líði vel að störfum.