2. 11 Jafnréttisstefna

Stefna Menntaskóla Borgarfjarðar er að skapa tækifæri fyrir alla nemendur til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar og umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. MB leggur áherslu á menntun til jafnréttis þar sem fjallað er um hvernig þættir eins og aldur, kyn, kynhneigð, stétt, tungumál, uppruni, ætterni og fleira geta skapað mismunun og forréttindi í lífi fólks.

Stefna skólans er að gæta fyllsta jafnréttis allra kynja og að starfsmenn og nemendur séu metnir og virtir að verðleikum á eigin forsendum.  Með jafnri stöðu kynjanna nýtist sú auðlegð sem felst í menntun, reynslu og viðhorfi þeirra. Þannig verði tryggt að mannauður verði sem best nýttur. Markmið jafnréttisáætlunarinnar er að stuðla að jafnri stöðu og jöfnum tækifærum einstaklinga óháð kynferði eða annarra aðgreinandi þátta.

Jafnréttisáætlun MB byggir á VII. kafla, 65. grein í stjórnarskrá Íslands, en þar segir:

  • Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvítvetna.

Jafnréttisáætlunin byggir á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Jafnrétti, sem einn af grunnþáttum aðalnámskrár, á að endurspeglast í starfsháttum skólans, samskiptum og skólabrag.  Markvisst er unnið að því að gæta jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum skólans.

Launajafnrétti

Markmið: Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Öll kyn skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Aðgerð: Laun kennara eru í fullu samræmi við kjarasamning ríkis og Kennarasambands Íslands (KÍ) og stofnanasamningi MB og KÍ. Laun allra kynja við MB eru metin til jafns og launamisrétti kynja er ekki til staðar. Það sama á við um hinn almenna starfsmann og stjórnendur. Til að tryggja þennan þátt skal gerð úttekt á launum ár hvert.

Ábyrgð: Skólameistari.

Tímarammi: Lokið í mars ár hvert.

 

Laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun

Markmið: Störf sem eru laus til umsóknar hjá MB skulu standa opin öllum kynjum. Stjórnendur skólans skulu einnig tryggja að öll kyn njóti sömu möguleika til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi.

Aðgerð: Gerð skal samantekt á kynjahlutföllum í öllum starfshópum ásamt yfirliti yfir öll störf, umsækjendur og ráðningar. Árleg greining, á sókn allra kynja í sambærilegum störfum, í endurmenntunarnámskeið og í starfsþjálfun.

Ábyrgð: Skólameistari og aðstoðarskólameistari.

Tímarammi: Lokið í febrúar ár hvert.

 

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Markmið: Starfsmönnum MB, óháð kyni, skal gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu.

Aðgerð: Skal það framkvæmt með sveigjanleika í skipulagningu vinnu og vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og þarfa atvinnulífs. Feður verði hvattir til að taka leyfi vegna veikra barna jaft á við mæður.

Ábyrgð: Skólameistari

Tímarammi: Framfylgt jafnóðum.

 

Einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni

Markmið: Lögð skal áhersla á fræðslu um einelti og kynbundið ofbeldi, kynbundna- og kynferðislega áreitni með það að markmiði að stuðla að því að starfsfólk og nemendur séu meðvitaðir um slík málefni og geti greint slík mál og brugðist við þeim. Þegar slík mál koma upp skulu þau fara í þann farveg sem lýst er í skólanámskrá MB um eineltismál kafla 2.9 og 2.9.1. Mikilvægt er að nemendur upplifi sig örugga í öllu skólastarfi, í kennslustofu, í íþróttum, í búningsklefum, á göngum skólans og í félagslífi.

Aðgerð: Fjallað er um jafnrétti í ýmsum áföngum MB svo sem kynjafræði, félagsfræði, uppeldisfræði, sögu, lífsleikni, líffræði og sálfræði. Endurskoða þarf eineltisáætlun MB með reglubundnum hætti og gæta að því að hún sé í samræmi við lög og reglur. Starfsfólk og nemendur fái mikilvæga fræðslu um einelti, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni.

Ábyrgð: Skólameistari sem og aðrir starfsmenn skólans og nemendur.

Tímarammi: Febrúar ár hvert

 

Menntun og skólastarf

Markmið: MB leggur áherslu á að í öllu skólastarfi sé ákvæði jafnréttislaga, nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, er varða menntun og skólastarf, sé höfð að leiðarljósi sbr. 23. gr laganna. Náms- og starfsráðgjafi sem og aðrir ráðgjafar MB svo sem umsjónarkennarar veita öllum kynjum sömu fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sömu atriði er varða nám og störf. Að öll kyn leiti jafnt til náms- og starfsráðgjafa.

Aðgerð: Fjallað er um jafnrétti í ýmsum áföngum MB svo sem kynjafræði, félagsfræði, uppeldisfræði, sögu, lífsleikni, líffræði og sálfræði. Náms- og starfsráðgjafi afhendir skólameistara tölfræðilega skýrslu í lok hvers skólaárs varðandi viðtöl. Öll kyn eru hvött til að nýta sér ráðgjöf náms- og starfsráðgjafa. Kennarar og stjórnendur MB sæki námskeið varðandi kynjasamþættingu og jafnrétti kynjanna.

Ábyrgð: Skólameistari, náms- og starfsráðgjafi sem og aðrir starfsmenn skólans og nemendur.

Tímarammi: Febrúar ár hvert. Námskeið annað hvert ár.

Aðgerðir skv. aðgerðaráætlun í jafnréttisstefnu þessari verða kynntar nemendum og starfsfólki á starfsmannafundum og nemendafundum á sal jafnóðum.

Áætlunin skal endurskoðuð á 3ja ára fresti.