7 – Húsnæði og aðstaða

Menntaskóli Borgarfjarðar er starfræktur í mennta- og menningarhúsi Borgarfjarðar. Húsnæðið er á tveimur hæðum og auk þess er kjallari í húsinu. Húsnæðið er hannað með sveigjanlega kennsluhætti í huga. Sex góðar kennslustofur eru í húsnæðinu auk þess sem til staðar eru tvær minni stofur sem nýttar eru undir starfsemi starfsbrautar. Í húsnæðinu eru opin rými sem nýst geta fyrir verkefnavinnu nemenda. Ein kennslustofan býður upp á að henni sé skipt upp í tvær minni með hreyfanlegu skilrúmi. Ein af kennslustofunum er fullbúin raungreinastofa með læstum hirslum fyrir hættuleg efni, tilraunaborðum fyrir 12 nemendur og öllum lögboðnum öryggistækjum sem eiga að vera til staðar í rannsóknarstofu. Í skólanum er þráðlaust net sem nemendur og kennarar hafa aðgang að. Í öllum kennslustofum eru tjöld, töflur og skjávarpar. Aðgengi fyrir fatlaða er gott og lyfta er í húsinu. Mötuneyti er á fyrstu hæð og þjónar það bæði nemendum og starfsfólki. Aðstaða fyrir kennara er á annarri hæð, þar er kaffistofa starfsfólks og skrifstofa skólans sem þjónar bæði kennurum og nemendum. Skrifstofa Nemendafélags Menntaskóla Borgarfjarðar er í kjallara auk þess er þar salur fyrir félagsaðstöðu nemenda.