4 – Innra mat

Um innra mat Menntaskóla Borgarfjarðar fer samkvæmt 40. og 41 gr. framhaldsskólalaga nr. 92/2008.  Sjálfsmatskýrslur skólans er að finna á heimasíðu skólans. Hverjum framhaldsskóla landsins er gert að meta með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs á grundvelli framhaldsskólalaga nr. 92/2008 þar sem segir í 40. gr.

Markmið mats og eftirlits með gæðum í framhaldsskólum er að:

  • veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks framhaldsskóla, viðtökuskóla, atvinnulífs, foreldra og nemenda
  • tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár framhaldsskóla
  • auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum
  • tryggja að réttindi nema séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum

Í 41. gr. framhaldsskólalaga segir um innra mat: „Hver framhaldsskóli metur með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs á grundvelli 40. gr. með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra eftir því sem við á. Framhaldsskóli birtir opinberlega upplýsingar um innra mat sitt, tengsl þess við skólanámskrá og áætlanir um umbætur.”

Innra mati Menntaskóla Borgarfjarðar er ætlað að veita upplýsingar um starfshætti skólans, stuðla að umbótum og auknum gæðum auk þess að vera hluti af þróun skólastarfs. Hér á eftir fer lýsing á því kerfi sem Menntaskóli Borgarfjarðar hefur ákveðið að nota til að leggja mat á gæði skólastarfsins ásamt öðrum verkfærum sem skólinn notar við innra mat. Sjálfsmatsnefnd starfar við skólann og hana skipa aðstoðarskólameistari, fulltrúi starfsmanna og fulltrúi kennara.