5. 1 Áfangakerfi skólans

Skólinn starfar eftir áfangakerfi. Hverri námsgrein er skipt í áfanga sem hver um sig er kenndur á einni önn en skólaárinu er skipt í tvær annir. Í lok áfanga fær nemandi lokamat sem segir til um hversu vel nemandanum hefur gengið að tileinka sér námsmarkmið áfangans. Skólinn hefur innleitt Aðalnámskrá (2011) líkt og aðrir framhaldsskólar. Allar áfangalýsingar sem kennt er eftir í dag hafa verið endurunnar og lokamarkmið áfanga eru nú skilgreind út frá hugtökunum þekking, leikni og hæfni. Lokamarkmið námsbrauta hafa sömuleiðis verið skilgreind og aðlöguð að Aðalnámskrá framhaldsskóla og áföngum skólans hefur verið raðað á hæfniþrep. Skipulag náms miðast við skilgreind námslok samkvæmt 16.-19. gr. laga nr. 92/2008 þar sem öll vinna nemenda í framhaldsskóla skal metin í stöðluðum námseiningum og hver eining miðast við ákveðið vinnuframlag nemanda.