2. 1 Hlutverk og megináherslur

Menntaskóli Borgarfjarðar starfar samkvæmt aðalnámskrá og lögum um framhaldsskóla og öðrum lögum og reglugerðum sem varða starfsemi framhaldsskóla. Í skólanum er leitast við að efla alhliða þroska allra nemenda og búa þá undir virka þátttöku í fjölbreyttu nútímasamfélagi, störf í atvinnulífi og áframhaldandi nám.

Menntaskóli Borgarfjarðar hefur að leiðarljósi grunnþætti menntunar: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.

Í skólanum er leitast við að mæta ólíkum áhugasviðum og hæfileikum nemenda, víkka sjóndeildarhring þeirra, styrkja gagnrýna og skapandi hugsun, leggja rækt við persónulegan þroska og siðgæðisvitund og efla mannskilning, tillitsemi og virðingu fyrir fólki og umhverfi.

Einkunnarorð MB eru; Sjálfstæði – Færni  – Framfarir og kristallast viðhorf vinnunnar í skólanum í þessum kjörorðum.

Sjálfstæði: Í Menntaskóla Borgarfjarðar er lögð áhersla á að efla sjálfstæði, frumkvæði og skapandi hugsun meðal nemenda. Áhersla er lögð á sjálfstraust og sjálfstæði í vinnubrögðum. Skólinn hvetur  nemendur til að setja sér sín eigin markmið með náminu.

Færni: Í Menntaskóla Borgarfjarðar er lögð áhersla á færni og kunnáttu nemenda á fjölbreyttum sviðum. Nemendur eru þjálfaðir í þekkingarleit. Áhersla er á að efla nemendur sem einstaklinga og námsmenn þannig að þeir verði færari um að takast á við verkefni við krefjandi aðstæður.

Framfarir: Í Menntaskóla Borgarfjarðar er lögð áhersla á að með auknu sjálfstæði nemenda og færni verði stuðlað að sem mestum framförum nemandans. Skólinn hvetur nemendur til góðrar ástundunar, vandaðra vinnubragða, virkni í námi og félagslífi.