Brot á skólareglum getur valdið brottvísun nemenda en áður en sú ákvörðun er tekin fá nemendur sem brjóta gegn skólareglum skriflega áminningu frá skólameistara. Áður en til skriflegrar áminningar kemur er umsjónarkennari viðkomandi búinn að kynna sér málavöxtu og ræða við forráðamenn í þeim tilvikum þegar nemendur eru undir sjálfræðisaldri. Fái nemendur skriflega áminningu frá skólameistara hafa þeir almennt tækifæri til að andmæla innihaldi áminningarinnar áður en til beitingar viðurlaga kemur.
Verði nemandi uppvís að neyslu eða vörslu áfengis eða tóbaks í skólanum, á skólalóðinni eða í starfsemi á vegum skólans varðar það áminningu og jafnvel brottvikningu úr skóla ef brotið er alvarlegt eða að um endurtekið brot sé að ræða.
Nemandi sem verður uppvís að því að hafa áfengi eða vímuefni um hönd á skemmtunum skólans eða skólaferðalögum fer sjálfkrafa í bann við þátttöku á skemmtunum á vegum skólans næstu 6 mánuði þar á eftir. Áfengi sem upptækt kann að vera gert í þessu sambandi skal eytt í viðurvist stjórnenda skólans og nemendafélagsins. Lögregluyfirvöldum er ávallt tilkynnt um brot er varða landslög.