2. 5. 3 Starfslýsingar

Starf skólameistara

Næsti yfirmaður skólameistara er formaður stjórnar Menntaskóla Borgarfjarðar ehf. Skólameistari er framkvæmdastjóri Menntaskóla Borgarfjarðar og skal:

  • Bera ábyrgð á starfsemi skólans, menntunar- og uppeldishlutverki, þróunarstarfi innan hans, gerð skólanámskrár og innritun nemenda.
  • Bera ábyrgð á eignum, fjárreiðum og öðrum rekstri skólans.
  • Dagleg stjórn á fjármálum og ábyrgð á sjóðsuppgjöri.
  • Yfirumsjón með innkaupum.
  • Fylgist með og ber ábyrgð á notkun debet- og kreditkorta sem í notkun eru.
  • Sér um launaútreikninga og greiðslu launa í samvinnu við utanaðkomandi aðila.
  • Uppgjör á þriggja mánaða fresti í samræmi við reikningskilavenjur í samvinnu við utanaðkomandi aðila.
  • Gerð ársreiknings með skýringum í samvinnu við utanaðkomandi aðila.
  • Undirbúningur og gerð fjárhagsáætlunar ásamt skýringum í samvinnu við utanaðkomandi aðila.
  • Vinna með stjórn og skólanefnd að gerð fjárhags- og starfsáætlana til lengri og skemmri tíma og sjá til þess að þeim sé framfylgt.
  • Sjá um að lögum, reglugerðum og námskrá sé framfylgt.
  • Ráða, að höfðu samráði við skólanefnd og stjórn, starfsfólk skóla eftir því sem gildandi lög segja til um og skipta með þeim verkum, (ráðning aðstoðarskólameistara er háð samþykki stjórnar).
  • Hafa yfirumsjón með starfi kennara og annarra starfsmanna skólans og fylgjast með því að þeir ræki skyldur sínar og njóti þeirra réttinda sem þeim ber.
  • Sjá til þess að fylgst sé með því að nemendur stundi nám sitt, hlíti þeim reglum sem settar eru og njóti þeirra réttinda sem þeim ber.
  • Taka afstöðu til og úrskurða um álitamál vegna innra starfs og starfstíma skólans.
  • Sjá um tengsl skólans út á við, m.a. við aðstandendur nemenda, aðra skóla og aðila á öðrum sviðum atvinnulífsins.
  • Vera framkvæmdastjóri skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt.
  • Vera oddviti skólaráðs.
  • Kalla saman kennarafundi.
  • Bera ábyrgð á að starfsemi skólans sé kynnt.
  • Sjá til þess að fyrir liggi upplýsingar um skólastarfið og að nauðsynlegar skýrslur um það séu gerðar.
  • Bera ábyrgð á að upplýsa forráðamenn ólögráða nemenda um námsástundun, námsgengi og önnur atriði er varða skólavist nemandans og velferð hans.
  • Umsjón með sumarútleigu Nemendagarða MB ehf.

Skólameistari skal jafnframt:

  • Vera málsvari skólans.
  • Sitja fundi stjórnar og skólanefndar og undirbúa þá í samráði við formann.
  • Bera ábyrgð á skólareglum og eru breytingar á þeim háðar samþykki stjórnar skólans.
  • Vera bundinn þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna eða eðli málsins. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
  • Leggja áherslu á endurmenntun sína og alls starfsfólks.
  • Leggja áherslu á að við skólann sé stunduð framsækin og metnaðarfull menntastefna.
  • Uppfæra vef skólans eftir þörfum.

Starf aðstoðarskólameistara

Næsti yfirmaður aðstoðarskólameistara er skólameistari. Aðstoðarskólameistari er staðgengill skólameistara og vinnur með honum við daglega stjórn skólans og rekstur.

Ásamt skólameistara sinnir aðstoðarskólameistari og ber ábyrgð á: 

  • Umsjón með skipulagningu kennslu. 
  • Námsmati og mati á skólastarfi. 
  • Móttöku nýrra starfsmanna. 
  • Endurmenntun starfsfólks. 
  • Forfallakennslu. 
  • Gerð skólanámskrár og útgáfu hennar. 
  • Hafa umsjón með gæðastarfi og sjálfsmati innan skólans.
  • Sér um að afla frétta og miðla efni á samfélagsmiðlum skólans.
  • Taka við tilkynningum um veikindi, leyfi og aðrar fjarvistir starfsmanna, skrá þær og koma boðum áfram. 
  • Aðstoðar skólameistara við gerð ráðninga- og verksamninga. 
  • Hefur yfirumsjón með skipulagi áfanga og gerð stundaskrár. 
  • Ber ábyrgð á námsferlum nemenda. 
  • Tekur þátt í þróunarstarfi við skólann. 
  • Sér um að meta nám nemenda úr öðrum skólum. 
  • Hefur umsjón með heimasíðu skólans.
  • Sér um að fara yfir kennslukerfi MB og uppfæra eftir þörfum (Moodle).  
  • Vinnur þau verkefni sem skólameistari felur honum í þágu skólastarfsins almennt. 

Starf skólafulltrúa

Næsti yfirmaður skólafulltrúa er skólameistari. Skólafulltrúi starfar á skrifstofu skólans. Hann annast ýmiss konar afgreiðslu í þágu nemenda, kennara og annars starfsfólks.

Skólafulltrúi skal: 

  • Annast öll dagleg skrifstofustörf.
  • Hafa umsjón með greiðslu samþykkta reikninga, en samþykki reikninga er í höndum skólameistara.
  • Hafa eftirlit með því að greiðslur berist á réttum tíma og annast samskipti við banka og skattayfirvöld í samvinu við skólameistara. 
  • Hafa umsjón með útgáfu reikninga.
  • Hafa yfirumsjón með bókhaldi og í samvinnu við endurskoðenda félagsins.
  • Aðstoða gjaldkera nemendafélagsins við bókhald og fjárreiður félagsins í samvinnu við félagsmálafulltrúa og skólameistara.
  • Annast gerð ársreiknings fyrir NMB með skýringum í samvinnu við félagsmálafulltrúa og skólameistara.
  • Sjá um símavörslu, taka á móti bréfpósti og umsjón með netfanginu menntaborg@menntaborg.is
  • Sjá um útgáfu vottorða, gerð skýrslna og skírteina eftir þörfum.
  • Sjá um innheimtu gjalda.
  • Gera upp og sjá um sjóð skrifstofu.
  • Sjá um skápaleigu til nemenda.
  • Skrá ný netföng á nýnema.
  • Viðhalda pósthópum í tölvupóstkerfi MB
  • Taka við tilkynningum um veikindi, leyfi og fjarvistir nemenda og skrá þau í nemendabókhald skólans.
  • Sjá um innkaup á helstu rekstrarvörum skrifstofunnar.
  • Leita eftir tilboðum í ýmsar ferðir, rútukostnað og fleira.

Kennarar

Næsti yfirmaður kennara er skólameistari. Kennarar annast, taka þátt í og bera ábyrgð á eftirfarandi:

  • Kennslu, undirbúningi kennslu, námsmati og faglegu samstarfi skv. markmiðum skóla- og aðalnámskrár.
  • Gerð kennsluáætlana og vinnslu námsmats í samstarfi við aðra kennara.
  • Að viðhalda faglegri hæfni sinni og huga að tengslum við aðrar námsgreinar.
  • Skráningu fjarvista nemenda sinna.
  • Öðru samstarfi vegna starfs síns skv. markmiðum skóla og aðalnámskrár.
  • Almennri upplýsingagjöf og upplýsingagjöf vegna sjálfsmats skóla og skólanámskrár.
  • Að hafa tiltekinn viðtalstíma fyrir nemendur, forráðamenn og vegna upplýsingagjafar.
  • Að sitja a.m.k. einn fund á ári/önn með forráðamönnum ólögráða nemenda.
  • Að sitja kennarafundi sem boðaðir eru skv. reglugerð um kennarafundi.

Auk framangreindra fastra starfa kennara er skólameistara heimilt að semja við þá um sérstakar greiðslur vilji þeir taka að sér þróunarstörf.

Náms- og starfsráðgjafi

Næsti yfirmaður náms- og starfsráðgjafa er skólameistari. Náms- og starfsráðgjafi veitir nemendum leiðsögn í persónulegum málum sem snerta námið og skólann. Hann er þeim til ráðgjafar og aðstoðar við lausn vandamála sem tengjast námi eða félagslegum þáttum skólavistarinnar. Náms- og starfsráðgjafi metur hvort unnt sé að leysa úr málum innan skólans eða hvort leita þurfi eftir sérhæfðari meðferð til viðeigandi sérfræðinga eða stofnana.

Hann kemur upplýsingum þar um til skólameistara. Hlutverk náms- og starfsráðgjafa er fyrst og fremst að vera málsvari og trúnaðarmaður nemenda innan skólans og standa vörð um velferð þeirra.  Lögbundið hlutverk námsráðgjafa er:

  • Að skipuleggja og sjá um framkvæmd náms- og starfsfræðslu í skólanum.
  • Að annast ráðgjöf um náms- og starfsval.
  • Að taka þátt í að skipuleggja ýmsar aðgerðir til að stuðla að betri líðan nemenda í skólanum.
  • Að fylgjast með námsgengi nemenda sem til hans leita eða til hans er vísað og gera tillögur til úrbóta gerist þess þörf.
  • Að liðsinna kennurum vegna námsvanda einstakra nemenda og vera þeim til aðstoðar við skipulagningu og umsjón með nemendahópum.
  • Að taka þátt í skipulagningu og kynningu meðal grunnskólanema á starfsemi og námsframboði skólans.
  • Að hafa samband við forráðamenn nemenda þegar þörf er á.
  • Að fylgjast með nýjungum á sviði námsráðgjafar.
  • Að taka þátt í viðbragðsáætlun vegna eineltis, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi.
  • Að taka saman skýrslu um starfsemina í lok hvers skólaárs.

Persónuleg mál nemenda eru trúnaðarmál.

Umsjónarkennari

Næsti yfirmaður umsjónarkennara er aðstoðarskólameistari. Umsjónarkennari skal:

  • Stuðla að góðu námsgengi nemenda í skólanum og koma þannig í veg fyrir brottfall þeirra úr skóla.
  • Stuðla að góðri líðan nemenda í skólanum m.a. með því að byggja upp jákvæðan starfsanda.
  • Hitta umsjónarhópinn til að miðla upplýsingum og auk þess hitta hvern umsjónarnemanda a.m.k. einu sinni á önn í einkaviðtali.
  • Fræða nemendur um skólann s.s. starfsfólk og starfssvið þeirra, starfshætti skólans, reglur, námsbrautir og valgreinar.
  • Fylgjast með ástundun og gengi sinna umsjónarnemenda og veita þeim persónulegt aðhald og stuðning og koma ábendingum um námsvanda á framfæri við námsráðgjafa.
  • Aðstoða nemendur við námsval og námsáætlun.
  • Fylgjast með mætingum nemenda, leita skýringa og gera viðeigandi ráðstafanir.
  • Stuðla að jákvæðum anda innan hópsins.
  • Boða foreldra/forráðamenn nýnema í viðtal á fyrstu önn.
  • Bjóða upp á viðtöl aðrar annir.
  • Vera í tengslum við forráðamenn nemenda (undir lögaldri) ef með þarf.
  • Vera talsmaður nemenda gagnvart stjórnendum, kennurum og öðru starfsfólki skólans.
  • Fylgja eftir viðbragðsáætlun um einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi.

Kennslustjóri starfsbrautar

Næsti yfirmaður kennslustjóra starfsbrautar er skólameistari. Kennslustjóri starfsbrautar hefur umsjón með faglegu starfi á starfsbraut. Með umsjón er átt við skipulagningu, samhæfingu og verkefnastjórnun á starfsbraut. Markmið starfsins er að bjóða nemendum sem hafa greiningu fagaðila og geta ekki nýtt sér almennt tilboð framhaldsskóla upp á nám við hæfi bæði bóklegt og verklegt eins og mögulegt er.

Kennslustjóri starfsbrautar:

  • Er umsjónarkennari nemenda og skipuleggur námsframboð brautarinnar með tilliti til nemendahópsins.
  • Sér um upplýsingastreymi og samráð við forráðamenn nemenda og starfsfólk skólans.
  • Hefur umsjón með móttöku gesta á starfsbraut, s.s. kennaranemum, nemendum og kennurum frá öðrum skólum.
  • Er skólameistara til ráðgjafar við ráðningar kennara á starfsbraut.
  • Hefur umsjón með inntöku nýrra nemenda í samvinnu við skólameistara.
  • Vinnur markmiðs og einstaklingsáætlanir nemenda.
  • Vinnur tilfærsluáætlanir í samvinnu við nemendur og foreldra.
  • Vinnur skýrslu um starfsemi brautarinnar.
  • Vinnur að þróun starfsbrautar í takt við breytta kennsluhætti og áherslur Menntaskóla Borgarfjarðar.

Sérkennari

Næsti yfirmaður sérkennara er skólameistari.

  • Starf sérkennara á starfsbraut felur í sér að þroska með nemendum hæfni og getu sem gerir þeim fært að takast á við fjölbreytt viðfangsefni daglegs lífs á heimili, í vinnu og í tómstundum.
  • Sérkennari vinnur að því að auka sjálfstæði og sjálfsábyrgð nemenda með því að gera þá meðvitaðri um eigin persónu, félagsleg samskipti og umhverfið. Að veita nemendum tækifæri til að öðlast nýja reynslu sem og að tileinka sér þekkingu sem getur nýst þeim að námi loknu.
  • Starfið miðast við fjölbreytta kennsluhætti sniðna að þörfum og getu hvers nemenda. Námið er einstaklingsmiðað.
  • Metnaður er lagður í að nýta nútímatækni, bæði í kennslu og við gerð sérhæfðra námsgagna.
  • Sérkennari skipuleggur námið og námsmatið og tekur mið af óskum, áhugasviði og möguleikum nemenda, óskum og áliti foreldra ásamt þeim möguleikum sem skólinn og umhverfið býður upp á hverju sinni.
  • Sérkennari sér um að útvega og búa til námsefni og námsgögn fyrir nemendur og virkja og leiðbeina öðrum starfsmönnum brautarinnar í því efni.

Stuðningsfulltrúi

Næsti yfirmaður stuðningsfulltrúa er skólameistari.  Helstu verkefni eru þessi:

  • Stuðningsfulltrúi er sérkennurum og þroskaþjálfum á starfsbraut til aðstoðar við að sinna nemendum.
  • Vinnur undir leiðsögn sérkennara að ýmsum verkefnum sem til falla.
  • Fylgir nemendum í tíma til kennara utan starfsbrautar, hvort sem um er að ræða hópa eða einstaklinga, og sinnir þeim sem þurfa aðstoð.
  • Leitast við að styðja nemendur í félagslegum samskiptum innan og utan kennslustofu.
  • Aðstoðar nemendur við daglegar athafnir sé þess þörf.
  • Fylgir nemendum á ferðum þeirra um skólann, í frímínútum og vettvangsferðum sé þess þörf.
  • Situr fundi starfsbrautar með kennurum hennar.

Félagsmálafulltrúi

Næsti yfirmaður félagsmálafulltrúa er skólameistari.

Félagsmálafulltrúi skal:

  • Vera nemendum til aðstoðar við skipulag og framkvæmd félagsstarfsins.
    • Funda reglulega með stjórn nemendafélagsins.
  • Vera tengiliður nemendafélagsins við skólastjórnendur.
  • Ýta undir jákvætt og heilbrigt félagslíf innan skólans.
  • Aðstoða við að fá kennara, annað starfsfólk eða foreldra til að vera í gæslu á uppákomum á vegum NMB í samráði við skólameistara.
  • Fara í nemendaferðir sem gæsluaðili fyrir hönd MB eftir þörfum og samkomulagi.
  • Upplýsa kennara og aðra starfsmenn reglulega um hvað er á döfinni hjá NMB.
  • Hafa samráð við húsvörð um notkun NMB á húsnæði skólans.
  • Annast ýmis verkefni sem honum eru falin og samkomulag er um.

Matráður

Næsti yfirmaður matráðs er skólameistari. Matráður skal:


  • Hafa umsjón með öllum rekstri mötuneytis í samstarfi við fjármálastjóra.
  • Skipuleggja sig með verkefnið Heilsueflandi skóli að fyrirmynd.
 

  • Gera matseðil mánuð fram í tímann.
  • Annast innkaup matfanga.
  • Annast matseld á skólatíma.
  • Annast frágang að máltíð lokinni.
  • Sjá um ræstingar í eldhúsi og í borðsal skólans.
  • Annast eftirlit með kostnaði.
  • Bera ábyrgð á að kröfur um hollustuhætti séu uppfylltar.


  • Hafa umsjón með skráningu nemenda og starfsamanna í mat.