Samkvæmt 3.gr. reglugerðar um rétt nemenda í framhaldsskólum til kennslu í íslensku skulu framhaldsskólar setja sér móttökuáætlun fyrir nemendur með annað tungumál en íslensku eða ef nemendur hafa dvalið langdvölum erlendis. Móttökuáætlun MB byggist á þessari reglugerð svo og sérstöðu skólans.
Í móttökuáætluninni er m.a. fjallað um innritun nemenda, samstarf við grunnskóla, fyrirkomulag móttökuviðtals, gerð einstaklingsnámskrár og skipulag samstarfs milli kennara og sérfræðinga innan skólans. Áætlunin tekur mið af bakgrunni nemendanna, tungumálafærni, færni á öðrum námssviðum og af þeirri kennslu og stuðningi sem veittur er. Námið skal miða að því að nemendur verði færir um að skilja og nota íslenskt mál og taka virkan þátt í íslensku samfélagi.
Móttökuviðtal
Náms- og starfsráðgjafi skipuleggur móttökuviðtal við hvern nemanda og foreldra hans. Túlkur verður viðstaddur ef þess er þörf og sér skólinn þá um að útvega hann. Í viðtalinu er upplýsinga um bakgrunn nemanda og aðstæður fjölskyldunnar aflað og látnar í té upplýsingar frá skólanum um starfshætti skólans, þjónustu- og skólareglur. Sá stuðningur sem stendur nemandanum til boða í skólanum, bæði í formi náms- og starfsráðgjafar og annars stuðnings er kynntur. Umsjónarkennari er einnig virkur stuðningsaðili fyrir nemandann. Í viðtalinu fá nemandi og foreldrar einnig upplýsingar um þá starfsemi sem skólinn býður upp á utan lögbundinnar kennslu eins og til dæmis það félags- og tómstundastarf sem nemendafélag skólans stendur fyrir. Foreldrar nemenda sem eru yngri en 18 ára hafa aðgang að Innu og kennslukerfi skólans og í móttökuviðtali er þeim kynnt hvernig þau kerfi virka.
Kennsla nemenda með annað tungumál en íslensku sem móðurmál
Námsframboð MB takmarkar val nemandans en ÍSAN (íslenska sem annað tungumál) verður í boði ásamt ráðgjöf varðandi námið. Markmið námsins er að koma til móts við nemendur með annað móðurmál en íslensku þannig að þeir nái árangri í námi og geti sýnt hvað í þeim býr.