Ritstuldur felur í sér að nemandi hagnýtir sér í verkefnum sínum og ritsmíðum hugverk annarra án þess að láta þess getið og vísa til heimilda eftir þar til gerðum reglum. Gildir þá einu hvort um er að ræða búta úr verki eða verkið í heild.
Með hugverki er átt við höfundarverk á borð við bækur, greinar, ritgerðir, aðrar ritsmíðar, myndir eða annað jafnt á prenti, tölvutæku formi eða á annars konar formi sem tilheyrir tilteknum rétthafa þess.
Viðurlög við brotum
Verði nemandi uppvís að ritstuldi eða misferli í verkefnavinnu ræðir kennari við hann og gerir honum grein fyrir alvarleika málsins. Verkefnið telst ógilt og nemandi fær einkunnina 0. Ef nemandi heimilar öðrum að endurrita verkefni sem hann hefur unnið fá báðir 0 fyrir verkefnið.
Við ítrekuð brot á ritstuldi þá fer nemandi í viðtal hjá skólameistara eða aðstoðarskólameistara.
Í Menntaskóla Borgarfjarðar er stuðst við APA-heimildaskráningarkerfið.
Notkun gervigreindar í MB:
Gervigreind á borð við ChatGPT eða Microsoft CoPilot eru öflug verkfæri sem geta nýst nemendum í námi og við margskonar verkefnavinnu.
Notkun gervigreindar er ekki bönnuð:
MB bannar ekki notkun gervigreindar skilyrðislaust en það er á valdi kennara í hverjum áfanga hvort og hvernig megi nota hana. Skólinn lítur á gervigreind sem verkfæri til menntunar en hana þarf að nota á skynsaman, gagnsæjan og siðferðislega réttan hátt. Gervigreind hefur möguleika á að verða gagnlegt tól í námi nemenda, ef nemendur nota hana á heiðarlegan hátt. Notkun hennar byggist þá á því að nemendur beiti gagnrýnni hugsun til að auka við þekkingu sína og skili af sér afurð sem er upprunnin hjá þeim sjálfum.
Er gervigreind áreiðanleg?
Gervigreind getur verið skeikul, hlutdræg og telst ekki áreiðanleg heimild. Nemendur ættu ekki að treysta alfarið á gervigreind heldur sannreyna ætíð trúverðugleika upplýsinga sem þaðan koma. Nemendur ættu að hafa í huga að textar framleiddir af gervigreind eru stundum undarlega orðaðir, fullir af endurtekningum og vélrænir.
Hvernig á að skilgreina misnotkun á gervigreind og öðrum, gagnvirkum verfærum?
Um notkun gervigreindar í MB gilda sömu reglur og notkun annarra heimilda. Nemendur þurfa að vera meðvitaðir um að verkefni sem leyst er með hjálp gervigreindar, hvort sem er að hluta eða í heild, telst ekki vera þeirra eigið og því verður að geta heimilda. Notkun gervigreindar til að leysa verkefni eða skrifa ritgerð (eða hluta af verkefni eða ritgerð) án þess að viðurkenna, tilgreina og vísa til heimilda á réttan hátt í heimildaskrá verkefnis/ritgerðar, jafngildir ritstuldi og telst brot á reglum um meðferð heimlda. Brot af því tagi hefur sömu viðurlög. Þar að auki er nauðsynlegt að nemendur fylgi reglum og leiðbeiningum viðkomandi kennara um hvort gervigreind megi nota á einhvern hátt í úrlausn verkefna eða prófa. Reglur og leiðbeiningar geta verið ólíkar milli kennara og verkefna. Nemendur skulu ráðfæra sig við viðkomandi kennara hvort gervigreind megi nota á ákveðinn hátt í verkefni eða prófi.
Samantekt:
- Nemendum ber að fylgja fyrirmælum kennara um notkun gervigreindar við lausn verkefna. Leiki vafi á því hvort og hvernig heimilt sé að nota gervigreind við lausn tiltekins verkefnis ber nemendum að ráðfæra sig við viðkomandi kennara.
- Það er ekki leyfilegt að láta gervigreind vinna verkefni fyrir sig. Það er í lagi að styðjast við gervigreind til að fá hugmyndir og upplýsingar, en mikilvægt er að muna að gervigreind er ekki áreiðanleg heimild og því er ekki hægt að vísa í hana sem slíka. Nemendum ber að fylgja reglum um meðferð heimilda.
- Verkefni sem nemandi skilar skal ávallt byggjast á og endurspegla þekkingu, hæfni og reynslu nemandans.
- Nemendur bera sjálfir fulla ábyrgð á námsverkefnum sínum og skulu vera tilbúnir að útskýra innihald þeirra og þekkingu sína á efni þeirra, hvort sem er í samtali eða texta, ef kennari fer fram á það.
- Ef grunur leikur á að nemandi hafi notað gervigreind til að leysa verkefni og getur ekki útskýrt innihald þess eða sýnt fram á eigin þekkingu og skilning á efninu, verður verkefnið ekki tekið til greina við útreikning lokaeinkunnar.